Á Alþingi í dag sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra það spennandi kost að opna ráðgjafarstofu innflytjenda í Reykjanesbæ.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, ræddi ráðgjafarstofuna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Kolbeinn benti á að ráðgjafarstofa fyrir innflytjendur opnaði sem tilraunaverkefni í síðasta mánuði og sagði það óhætt að segja að reynslan af verkefninu væri býsna góð og að mörg hundruð fyrirspurnir hafi borist stofunni.
Benti Kolbeinn þá einnig á að hlutfall innflytjenda væri býsna hátt í Reykjanesbæ og þar væri atvinnuleysi slæmt. Á ákveðnum tímapunkti hafi hlutfall erlendra ríkisborgara af atvinnulausum verið um 45%.
Sagði hann ráðgjöf á því sviði gríðarlega mikilvæga fyrir fólk sem ekki þekki inn á kerfið og því væri mikilvægt fyrir þau sem misst hafa vinnuna að þekkja stöðu sína. Kolbeinn benti á að í ráðgjafarstofu innflytjenda við Hlemm væri opið hús og þar væri hægt að hitta ráðgjafa frá Vinnumálastofnun.
Kolbeinn spurði því hvort það væri „ekki einboðið að opna útibúa ráðgjafarstofu í Reykjanesbæ þar sem þörfin fyrir það að geta gengið inn af götunni og fengið ráðgjöf er svo sannarlega fyrir hendi hjá þessum hópi.“
Ásmundur sagði það þá skynsamlegt að skoða í framhaldinu frekari staðsetningar og þá væri auðvitað Reykjanesið nærtækt enda er þar hátt hlutfall innflytjenda.
„En ég held að það þurfi samt að koma aðeins meiri reynsla á málið áður en það er hægt að taka formlega ákvörðun um það,“ sagði Ásmundur og benti á að stofnanir ráðuneytisins eins og Vinnumálastofnun væru með útibú í Reykjanesbæ þar sem að starfsfólki hefur verið fjölgað.
Ásmundur sagði þá að ekki væru fjárheimildir til þess í yfirstandandi fjárlögum að opna ráðgjafarstofu innflytjendamála í Reykjanesbæ en fengjust til þess auknar fjárveitingar væri hann ekki mótfallinn því.
„En klárlega komi til að við opnum sannað slíkt úrræði, sem að mér finnst spennandi, með lágþröskuldaþjónustu eins og þessari finnst mér Reykjanesbær nærtækt næsta skref í því efni,“ sagði Ásmundur að lokum.