Finni starfsfólk eða nemendur fyrir alvarlegum veikindaeinkennum vegna raka eða svartmyglusvepps í skólum eða stofnunum ber að hætta notkun húsnæðisins, að því er fram kemur í skýrslu Heilbrigðisstofnunar Danmerkur frá árinu 2009.
Í henni er að finna leiðbeiningar um viðbrögð við myglusvepp og kemur þar meðal annars fram að vægur vöxtur myglusvepps gefur ástæðu til að stofnunin þar sem hann er uppgötvaður verði rýmd.
Foreldri barns í Fossvogsskóla, þar sem svartmyglusveppur hefur greinst, hafði samband við embætti landlæknis og vísaði til skýrslunnar en engin svör fengust frá embættinu.
Gró af skaðlegum myglusvepp hafa fundist í Fossvogsskóla og telur Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, helsti sérfræðingur landsins í myglu og doktor í sveppafræði, að uppspretta hljóti að vera í húsinu. Telur hún svo í kjölfar sýnatöku sem fram fór í kjölfar ítarlegra þrifa á húsnæðinu í október síðastliðnum.
„Komi upp alvarleg ofnæmis- eða asthmatilfelli þar sem rökstuddur grunur leikur á um að myglan sé orsökin ætti að flytja úr húsnæði þar sem myglan greindist eða hætta notkun skólahúsnæðis þar sem það á við,“ segir í skýrslunni framangreindu.