Helgi Bjarnason
Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði til að greina raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila og lengi hefur verið beðið eftir skilaði ekki skýrslu sinni á fjarfundi sem áætlaður var með ráðherra síðastliðinn fimmtudag.
Samkvæmt heimildum blaðsins hafði skýrslan verið send til ráðuneytisins fyrirfram en þau skilaboð bárust fyrir skilafundinn að starfsmenn ráðuneytisins væru að skoða skýrsluna og myndu væntanlega gera athugasemdir.
Flestar þær sjálfseignarstofnanir, einkafyrirtæki og sveitarfélög sem reka hjúkrunarheimili hafa undanfarna mánuði og ár kvartað mjög undan því að daggjöld hjúkrunarheimila væru of lág, sérstaklega með tilliti til krafna sem ríkið hefur gert um þjónustu þeirra frá árinu 2016. Meðal annars hafa fjögur sveitarfélög sem reka sex hjúkrunarheimili sagt upp samningum við Sjúkratryggingar og er verið að fela reksturinn öðrum, aðallega fyrirtækjum á vegum ríkisins.
Starfshópur heilbrigðisráðherra átti meðal annars að greina kostnað vegna kröfulýsingar ríkisins, greina og sundurliða raunkostnað og áhrif mismunandi hjúkrunarþyngdar og stærðar hjúkrunarheimila á rekstur, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.