„Viðtökurnar hafa klárlega farið langt fram úr okkar væntingum. Það er alveg ljóst að þarna var til staðar mjög mikil eftirspurn,“ segir Óli Rúnar Jónsson hjá Borg brugghúsi.
Athygli hefur vakið að úrval af áfengislausum bjór og svokölluðum léttbjór hefur aukist hratt í matvöruverslunum að undanförnu. Hinn íslenski Pilsner og sams konar 2,25% léttbjórar hafa lengi notið vinsælda en síðustu mánuði hefur bæst við áhugavert úrval af metnaðarfullum íslenskum bjórum sem flokkast flestir sem áfengislausir. Borg reið á vaðið með áfengislausum Bríó síðasta sumar og hefur hann selst afar vel að sögn Óla.
„Við áætlum að sala áfengislausra og áfengissnauðra bjóra á seinasta ári hafi verið á bilinu 1,6-1,8 milljónir lítra hér á landi. Við eigum von á aukinni sölu þarna, jafnvel að hún fari yfir tvær milljónir lítra í ár. Þar munar mest um vöxt í sölu á áfengislausum bjór. Við teljum að sá flokkur muni margfaldast á næstu misserum,“ segir Óli Rúnar.
Aðspurður segir Óli að auknar vinsældir áfengislausra bjóra megi rekja til gæða þeirra. „Þetta er bara eins og annar bjór, þetta er ferskvara. Það urðu tímamót þegar Íslendingar fóru í fyrsta skipti að geta nálgast nokkurra daga eða vikna gamlan áfengislausan bjór. Fólk kann greinilega að meta þetta.“
Borg fylgdi Bríó eftir með áfengislausum jólabjór, Froðusleiki, og á dögunum kom svo þorrabjórinn Hrymur. Þessa dagana er svo Sunna að koma í verslanir. Hún er að sögn Óla gerð eftir sömu uppskrift og nafna hennar sem fæst í Vínbúðinni. „Hún er bara brugguð með minna af öllu, minna af malti og minna af humlum. Svo eru fleiri áfengislausir bjórar á teikniborðinu sem líta dagsins ljós á næstu vikum,“ segir Óli Rúnar.
Fleiri íslensk brugghús hafa kynnt til sögunnar áfengislausa eða áfengissnauða bjóra. Víking setti í sölu Hvít jól fyrir jólin og Einstök býður upp á Arctic Pale Ale. Einstök setti líka á markað kókoshnetu-stout á dögunum sem er 0,5 að styrkleika og gerður í samstarfi við breska fyrirtækið Big Drop.
Þá blandaði brugghúsið Ölverk í Hveragerði sér í þennan leik með Litlahver sem seldur er í Melabúðinni og í ýmsum verslunum á Suðurlandi. „Þetta hefur gengið mjög vel. Við erum búin að selja heilan tank og meira er á leiðinni,“ segir Elvar Þrastarson, einn eigenda Ölverks.
„Það er mikið um þetta úti í heimi. Brugghús eru með 1-2 létta bjóra á krana meðfram hinum og ég hugsa að þetta sé framtíðin. Við á Ölverki höfum alltaf verið með einn léttan bílstjórabjór á krana svo fólk geti fengið sér bjór og pítsu og keyrt eftir það,“ segir Elvar.
Litlihver er að sögn Elvars ekki hefðbundinn léttbjór, hann er dökkur og bragðmeiri en slíkir bjórar eru oftast. „Þetta er aðeins meiri kraftbjór,“ segir bruggarinn.