Skýr merki um stóra skjálftann

Björgunarsveitin Þorbjörn að störfum í grennd við Keili vegna skjálftavirkninnar.
Björgunarsveitin Þorbjörn að störfum í grennd við Keili vegna skjálftavirkninnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvikugangurinn sem liggur suðvestur af Keili og undir Fagradalsfjalli gæti hafa lent á hafti undir Nátthaga við suðurenda fjallsins. Stöðug þensla mælist á svæðinu og kvika heldur áfram að streyma upp og inn í ganginn.

Frá þessu greinir Benedikt Gunnar Ófeigsson, sérfræðingur hjá Veðurstofunni á sviði jarðskorpuhreyfinga, í samtali við mbl.is um nýja gervihnattamynd af skjálftasvæðinu.

„Tunglið fór yfir í gærkvöldi og við erum að vinna úr gögnunum sem við fengum í morgun,“ segir Benedikt.

Á gervihnattamynd sem fékkst á laugardag þóttu vísbendingar vera um að mögulega væri grynnra á ganginum en áður. Benedikt segir að þess sjáist þó ekki merki á nýjustu myndinni, en talið er sem fyrr að grynnst sé niður á ganginn þar sem hann liggur undir Nátthaga.

Skýr merki um sunnudagsskjálftann

Stóri skjálftinn sem reið yfir á sunnudag, 5,4 að stærð, setur mark sitt á landslag Reykjanesskagans.

„Við sjáum mjög skýr merki frá skjálftanum. Það sést ákveðin færsla til norðurs annars vegar og suðurs hins vegar, sitt hvorum megin við sprunguna þar sem hann átti upptök sín.“

Áhrif skjálfta yfir fimm að stærð sjást yfirleitt vel með mælingum sem þessum og sömuleiðis GPS-mælingum að sögn Benedikts.

Kvika heldur áfram að streyma upp og inn í ganginn. 

„Það er kannski að hægja á streyminu, en það er þó of snemmt að fullyrða um það að sinni.“

Horft í vesturátt. Sandfell í forgrunni og Fagradalsfjall handan þess.
Horft í vesturátt. Sandfell í forgrunni og Fagradalsfjall handan þess. mbl.is/Skúli Halldórsson

Gangurinn lent á hafti í suðri

Skjálftavirknin hefur undanfarinn sólarhring verið mest við norðausturenda gangsins, eða þar sem hann liggur að Keili.

„Þetta er mjög áhugaverð þróun,“ segir Benedikt spurður hvort þessi vending geti sagt vísindamönnum eitthvað. 

„Þetta er kannski vísbending um það sem við höfðum talið líklegt, að gangurinn kæmist ekki lengra til suðurs. Hann hefur lent á einhverju hafti þar svo að kvikan er nú að leita einhverra annarra leiða. Hún kemst ekki sunnar og er að búa sér til pláss í jarðskorpunni. Það er ein möguleg skýring.“

Farið verður yfir þessa þróun á fundi vísindaráðs almannavarna síðar í dag og hvort túlka megi hana á aðra vegu. 

„En þetta er ef til vill sú skýring sem liggur beint við.“

Virknin tvístrast í suðvesturendanum

Ef horft er yfir þróun skjálftavirkninnar undanfarnar vikur er hægt að sjá hvernig flestir skjálftanna eiga upptök sín þar sem kvikugangurinn er talinn vera, en virknin tvístrast svo til suðurs og vesturs við suðurenda gangsins.

Spurður hvort þetta sé jafnvel til marks um að gangurinn hafi þarna tvístrast segir Benedikt að svo þurfi ekki að vera.

„Hann gæti hafa tvístrast þarna til vesturs, en líklega hefur þó þensla kvikunnar á þessu svæði ýtt á veikleika í jarðskorpunni þarna í kring, þegar hún komst ekki lengra. Við vitum það náttúrlega ekki, við sjáum ekki svo nákvæmlega þarna ofan í.“

Jarðeldar komu upp í Holuhrauni árið 2014.
Jarðeldar komu upp í Holuhrauni árið 2014. mbl.is/RAX

Opnaði jarðskorpuna eins og rennilás

Benedikt bendir á að í bæði Holuhraunsgosi og Fimmvörðuhálsgosi hafi kvika færst áður en hún kom loks upp.

„En þarna er kannski erfiðara fyrir kvikuna að koma sér í gegn en til dæmis í Holuhrauni. Þar eru flekaskilin allt öðruvísi, meiri togspenna, þannig að þar komst kvikan upp tiltölulega auðveldlega – opnaði í raun bara jarðskorpuna eins og rennilás.“

Undir Fagradalsfjalli er meiri skerspenna svokölluð, í stað togspennu. Flekarnir færast þannig til hliðar frekar en í sundur.

„Þess vegna er kannski erfiðara fyrir hana að komast upp en í Holuhrauni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert