Snýst um að gefa upp tiltekinn dag

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur 1. maí enn raunhæfan tímapunkt til að taka upp nýjar ráðstafanir á landamærunum. Þær eiga að felast í að miða við litakóðunarkerfi á áhættunni sem stafar frá farþegum frá ólíkum löndum miðað við ástand faraldursins í landinu.

„Við teljum að það sé enn þá mjög gagnlegt fyrir alla aðila að geta miðað við tiltekna dagsetningu fyrir tilteknar ráðstafanir,“ segir Svandís í samtali við mbl.is og vísar þar til dæmis til fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem hafa sagt breytinguna lykilatriði fyrir greinina í sumar.

Spurð hvað muni breytast 1. maí sem geri stjórnvöldum kleift að gera þessa breytingu þá, segir Svandís: „Fyrst og fremst höfum við þá eina tiltekna dagsetningu til að miða við og til að tryggja og auka þennan fyrirsjáanleika sem kallað hefur verið eftir. Þess vegna tókum við ákvörðun um þetta í janúar, að senda þessi skilaboð út.“ 

Ekki er þó öruggt að þessar breytingar á reglunum hafi í för með sér verulega aukinn straum fólks hingað til lands eða yfirleitt að mörg lönd muni flokkast sem græn og þar með geta sloppið við sóttkví og seinni skimun, enda skilyrðin nokkuð stíf.

Eins og litakóðunin lítur út núna ættu íbúar grænna og appelsínugulra landa að geta sloppið við hluta þeirra sóttvarnaráðstafana sem gilda við komuna til landsins.

Sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka.
Sóttvarnareglur sem gilda munu fyrir ólíka áhættuflokka. Skjáskot frá stjórnarráði

Ákveðin rök fyrir þessari leið

Stóra breytingin segir Svandís að felist í því að ráðstafanir fari að taka mið af stöðunni í hverju landi. Það gera þær ekki núna heldur gengur eitt yfir alla.

„Við sjáum að það eru mörg ríki sem eru farin að gera þetta nú þegar, til dæmis þegar Íslendingar geta komist með liprari hætti um Evrópu. Það eru ákveðin rök fyrir því að gera þetta svona í staðinn fyrir að vera með þrefalda skimun eins og við erum með núna fyrir alla.

Við gerum líka ráð fyrir því og megum búast við því að faraldurinn sé á niðurleið í samræmi við auknar bólusetningar þannig að þetta er að okkar mati enn þá algerlega raunhæfur tímapunktur til að taka upp nýjar ráðstafanir,“ segir Svandís. 

Í morgun var sagt frá því að Bandaríkjamönnum og Bretum verði héðan af gert kleift að framvísa bólusetningarvottorðum frá eigin löndum við komuna til landsins, sem eru góðar fréttir fyrir ferðaþjónustuna. Hingað til hafa aðeins bólusetningarskírteini frá ESB eða WHO verið tekin gild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert