Heildarfjöldi starfsmanna á launaskrá Ríkisútvarpsins á tímabilinu 31. desember 2019 til 30 september 2020 voru 271 stöðugildi en mennta- og menningarmálaráðuneytið getur ekki upplýst um það hversu margir starfsmenn RÚV unnu sem verktakar við þáttagerð þar, þar sem starfsmenn á launaskrá sinni ekki störfum sem verktakar á sama tíma og þeir eru launþegar.
Kemur þetta fram í svari mennta- og menningarmálaráðherra við fyrsta lið fyrirspurnar Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, sem hljóðaði svo: Hver var heildarfjöldi starfsmanna á launaskrá Ríkisútvarpsins, RÚV, 31. desember 2019 og 30. september 2020? Hversu margir þeirra voru einnig verktakar við þáttagerð hjá RÚV?
Enginn þáttur á vegum Ríkisútvarpsins var unninn af verktökum á árunum 2015 til 2020, þar sem starfsmenn Ríkisútvarpsins vinna ekki sem launþegar og verktakar á sama tíma að því er kemur fram í svari við öðrum lið fyrirspurnarinnar, sem hljóðaði svo: Hvaða þættir RÚV voru unnir af starfsmönnum stofnunarinnar sem verktakar á árunum 2015–2020? Óskað er eftir upplýsingum um heiti hvers þáttar.
Fastir pistlahöfundar og gagnrýnendur, bæði í útvarpi og sjónvarpi, fá greitt fyrir störf sín sem verktakar og fara greiðslur eftir fjölda og umfangi þeirra verkefna sem um er að ræða hverju sinni, að því er fram kemur í svari ráðherrans um þessi efni.
Þá fá álitsgjafar eða viðmælendur í þáttum í útvarpi eða sjónvarpi ekki greitt fyrir „slík viðtöl“ og skiptir þá ekki máli hversu oft hlutaðeigandi er fenginn til viðtals, segir í svari ráðherra sem byggir á upplýsingum frá RÚV. Spurt var um hvort fengnir séu fastir álitsgjafar reglulega í spjallþætti í morgunútvarpi og síðdegis.