Stuðningur við nýja ferðagjöf

Þórdís Kolbrún leggur til að stjórnvöld gefi ferðagjöf á nýjan …
Þórdís Kolbrún leggur til að stjórnvöld gefi ferðagjöf á nýjan leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að vel hafi verið tekið í hugmynd hennar á ríkisstjórnarfundi í dag um að taka það til athugunar að gefa Íslendingum ferðagjöf á nýjan leik í sumar.

Ferðagjöfin var gjöf frá stjórnvöldum til allra landsmanna upp á 5.000 krónur, sem nýta mátti í innlendri ferðaþjónustu, eða raunar flestallri verslun og þjónustu.

Enn eiga margir eftir að nýta sér sína inneign og gildistíminn var á sínum tíma framlengdur til maí. Nú hefur hann aftur verið framlengdur og í þetta skiptið til september, enda enn stór hópur fólks sem ekki hefur nýtt sér gjöfina.

Auki umsvif

„Við ákváðum að framlengja gildistímann og svo er það komið í skoðun hvort og þá hvernig við endurtökum leikinn. Sú ákvörðun liggur ekki fyrir,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is. Þó hafi verið tekið vel í hugmyndina vegna þess hve vel tókst til seinast.

„Ég lagði núna til að þetta yrði sett í skoðun hjá hagrænum hópi. Það fer þangað inn í bili en það er stuðningur við þetta vegna þess að ferðagjöfin virkaði vel seinast, hún eykur umsvif og hún margfaldast út í hagkerfinu,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert