Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segist vænta þess að svör liggi fyrir um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands „á allra næstu vikum“. Fjármálaráðherra hljómar ekki mjög opinn fyrir 13-14 milljarða króna mannvirkjum.
Eins og kom fram í frétt mbl.is um helgina kemur fyrst og fremst tvennt til greina: Að núverandi húsnæði í Laugarnesi verði endurbyggt og -hannað í samræmi við þarfir sameinaðs skóla, eða að ný bygging fyrir heildarstarfsemina rísi í Vatnsmýri.
Fjármála- og forsætisráðuneyti eru í viðræðum við ráðuneyti Lilju um endanlega ráðstöfun og þar koma einnig aðrir kostir til greina en ofangreindir. Rektor Listaháskólans hefur sagt að skólinn sé orðinn óþreyjufullur eftir svörum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is, aðspurður hvort menn hallist að Vatnsmýrinni: „Sumar hugmyndir hafa gengið út á að reisa mannvirki sem kosta 13-14 milljarða og það er nú ekki víst að það verði efst á blaði sem er dýrast.“
Stefnt sé að því að það liggi fyrir með vorinu hvaða staður er heppilegastur.
Húsnæðismál Listaháskólans hafa verið til umræðu um áratuga skeið. Það er laus lóð á svæði Háskóla Íslands, við hlið Öskju, jarðvísindabyggingar háskólans, og á móti Íslenskri erfðagreiningu, sem sérstaklega hefur verið skoðuð í þessu samhengi. Bæði Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands eru reiðubúin að láta LHÍ hana í té.
Menntamálaráðherra segir í samtali við mbl.is að það muni fara talsvert fjármagn í verkefnið eða „fjárfestinguna“ eins og hún kallar það. Ráðuneytið hafi enda mikla trú á skapandi greinum og því sem þeim tengist.
Spurð hvort hún hallist að því að niðurstaðan verði nýbygging í Vatnsmýri, segir Lilja einfaldlega: „Áætlunin er að við verðum komin með endanleg svör í síðasta lagi í byrjun sumars en það hefur átt sér stað umfangsmikil vinna þar sem búið er að fara yfir kostina.“
Verður byggð ný bygging?
„Við erum að ræða það. Sú ákvörðun verður tekin á allra næstu vikum. Eins og alltaf: Þetta tekur tíma og við verðum að vera bjartsýn.“