Farþegar báts sem lak og varð vélarvana reyndust tilheyra tökuliði bresku fréttastofunnar BBC að því er Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, staðfestir í samtali við mbl.is.
Farþegabáturinn varð vélarvana um fjögurleytið í dag norður af Hornströndum í nágrenni við Ísafjarðardjúp en um leið voru tvö björgunarskip Landsbjargar og þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð til auk skipa í nágrenninu.
Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-EIR, hífði farþegana fimm upp úr bátnum eftir að báturinn Otur ÍS tók hann í tog og var sjódælum einnig komið fyrir í bátnum til þess að gæta fyllsta öryggis. Um borð var einnig tveggja manna áhöfn.
Þyrlan lenti með farþegana um hálfátta í kvöld og varð engum meint af en eftir að Otur dró bátinn tók Gísli Jóns, björgunarskip Landsbjargar, við og kemur farþegabátnum til hafnar.