Borgarstjórn samþykkti samhljóða í kvöld tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fela velferðarsviði að hefja vinnu og undirbúning úttektar á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík í samræmi við fyrri úttektir frá árinu 2009, 2012 og 2017.
„Með úttektinni verði hægt að leggja mat á framvindu þeirra vinnu sem nú þegar hefur verið ráðist í af hálfu borgarinnar með það að markmiði að hægt sé að mæla árangur hennar í málaflokknum. Það verði gert til að ná betur utan um heimilislausa og tryggja þeim húsaskjól,“ segir í tillögunni.
„Við í Sjálfstæðisflokknum fögnum því að tillaga um úttekt á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík hljóti jákvæðan framgang innan borgarkerfisins enda mjög brýnt mál. Megintilgangur nýrrar úttektar er að kalla fram yfirlit yfir núverandi stöðu heimilislausra með það fyrir augum tryggja þeim þak yfir höfuðið,“ útskýrir Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og annar tveggja tillöguflytjanda.
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og annar tveggja tillöguflytjenda, vakti máls á stöðu kvenna í ræðu sinni en hún benti á að kortlagning frá árinu 2017 hafi leitt í ljós að úrræðaleysi fyrir konur væri heldur meira en hjá körlum.
„Þá er athugunarvert að árið 2017 voru hlutfallslega fleiri konur sem bjuggu á götunni eða við ótryggari aðstæður en karlar. Þarna þarf að gera betur,“ segir Ragnhildur Alda.
„Fjöldi heimilislausra óx um 95% á milli áranna 2012 og 2017 samkvæmt útgefnum skýrslum velferðarsviðs um stöðu heimilislausra. Í upphafi kjörtímabilsins voru málefni heimilislausra sett á dagskrá og mikið fjallað um málið innan borgarkerfisins og í samfélaginu öllu. Í kjölfarið hófst vinna við mótun nýrrar stefnu í málefnum heimilislausra. Unnið hefur verið eftir þeirri aðgerðaáætlun og markmiðum stefnunnar síðan þá. Samkvæmt tímaáætlun aðgerða og markmiða skýrslunnar hefur ýmislegt áunnist á meðan annað er í ferli. Þá hafa sumar þessara aðgerða enn ekki komið til framkvæmda,“ segir í greinargerð með tillögunni.