Helgi Bjarnason
Vel gengur að fjölga starfsfólki kísilvers PCC á Bakka við Húsavík á ný. Unnið er að því markmiði að ræsa ofna versins á nýjan leik í næsta mánuði. „Enn eru margir lausir endar sem við erum að hnýta,“ segir Rúnar Sigurpálsson forstjóri spurður nánar um tímasetningu.
PCC greip til tímabundinnar stöðvunar á ljósbogaofnum kísilversins á síðasta ári til að gera endurbætur á reykhreinsivirki þess og var meirihluta starfsfólks sagt upp störfum. Inn í þá ákvörðun að endurræsa ekki strax spiluðu áhrif kórónuveirufaraldursins á heimsmarkað fyrir afurðir versins.
Rúnar segir að verð á heimsmarkaði hafi þróast ágætlega síðustu mánuði, það hafi verið að mjakast í rétta átt en hann vildi þó gjarnan sjá það aðeins hærra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.