Að minnsta kosti 19 leikskólakennarar hafa sagt upp störfum eftir að Hafnarfjarðarbær ákvað að bjóða upp á heilsársopnun leikskóla.
Þetta kemur fram í aðsendri grein aðstoðarleikskólastjóra í Hafnarfirði í bæjarblaðinu Hafnfirðingi.
Þar er bent á að samkvæmt lögum eigi leikskólakennarar að vera tæplega 67% starfsfólks leikskóla. Einnig kemur fram að samkvæmt skýrslu á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2019 hafi hlutfall leikskólakennara í Hafnarfirði verið 26%.
„Eftir að fræðsluráð og ráðandi pólitík í Hafnarfirði tók þessa ákvörðun þvert gegn faglegum rökum leikskólafagfólks, féllust ansi mörgum hendur og nú hafa a.m.k. 19 leikskólakennarar sagt upp. Allt eru þetta leikskólakennarar sem búa að mikilli reynslu, faglegri þekkingu og flestir í stjórnunarstöðum. Hlutfall leikskólakennara í Hafnarfirði er þá komið niður í 21% miðað við tölur frá 2019. Þetta er grafalvarlegt mál og í raun ólöglegt,“ segir í greininni.
Fram kemur að flest allt starfsfólk leikskóla Hafnarfjarðar sé reiðubúið að fórna vali sínu um sumarfrí vegna þess að það setji hag barnanna og faglegs starfs ofar sínum þörfum.
„Fræðsluráð var varað við því að þetta gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir leikskólastigið þar sem mikil hætta væri á að leikskólakennarar færu yfir á önnur skólastig eða til starfa í öðrum sveitarfélögum,“ segir í greininni. Þar er bætt við að verstu spár séu núna að rætast.