„Bind miklar vonir við að þetta hafi gengið upp“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir telur mjög ólíklegt að fleiri smit leynist í samfélaginu vegna hópsýkingar breska afbrigðisins sem kom til hér á landi fyrr í marsmánuði. Hann telur möguleika á því að landamærasmitum sé að fjölga og bendir á að það geti valdið auknu álagi á heilbrigðiskerfið. Ákvörðun um áframhaldandi notkun bóluefnis AstraZeneca verður tekin eftir að Lyfjastofnun Evrópu skilar sínu mati á morgun.

„Ég bind miklar vonir við að þetta hafi gengið upp og við séum alla vega ekki að fást við einhver fleiri smit. Auðvitað veit maður ekki en mér finnst mjög ólíklegt að það séu einhver fleiri smit í gangi,“ segir Þórólfur, spurður hvort tekist hafi að ná utan um fyrrnefnda hópsýkingu. 

Líka spurning um landamærasmitin

Á síðasta sólarhring var einn einstaklingur lagður inn á spítala veikur af Covid-19. Nokkrir mánuðir eru liðnir síðan einstaklingur með virkt smit var síðast lagður inn á spítala. Spurður um það segir Þórólfur:

„Á hverjum degi greinast einhverjir á landamærunum, það má ekki gleyma því. Þeir geta veikst alvarlega og þurft að leggjast inn þannig að þetta er ekki bara spurning um innanlandssmitin heldur líka smit á landamærum. Manni finnst vera einhver fjölgun í landamærasmitunum, þó maður geti ekki sagt það með fullri vissu sýnist mér fljótt á litið að við séum að sjá aðeins aukningu þar líka sem gæti valdið auknu álagi á heilbrigðiskerfið þó við séum ekki að sjá samfélagslegt smit.“

Bíða eftir yfirlýsingu frá Lyfjastofnun Evrópu

Hlé var gert á bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í síðustu viku. Fleiri Evrópuþjóðir hafa einnig beðið með notkun bóluefnsins vegna ótta um að það geti valdið blóðtappa. Síðan þá hafa Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in, AstraZeneca og Lyfja­stofn­un Evr­ópu sagt að bóluefnið sé öruggt og engin tengsl séu á milli þess og blóðtappa. 

Lyfjastofnun Evrópu gefur út formlegt mat vegna þessa á morgun. Spurður hvenær sé útlit fyrir að aftur verði bólusett með bóluefni AstraZeneca segir Þórólfur:

„Við bíðum bara eftir yfirlýsingu Lyfjastofnunar Evrópu, við eigum von á henni og þeirra mati á morgun. Þá þurfum við bara aðeins að leggjast yfir það og sjá hvað við viljum gera, hvernig við viljum haga þessu í framhaldinu. Það fer svolítið eftir því hver þeirra niðurstaða er.“

Býstu við því að bólusetningu með bóluefni AstraZeneca verði haldið áfram?

„Ég get eiginlega ekkert sagt um það. Ég held að við þurfum fyrst að sjá hvernig þeirra mat hljóðar og síðan þurfum við bara að taka okkar ákvörðun í framhaldi af,“ segir Þórólfur. 

Getnaðarvarnarpillur og blóðtappar í umræðunni

Í umræðu um möguleg tengst bóluefnis AstraZeneca og blóðtappa síðustu daga hafa konur bent á að líkurnar á blóðtappa vegna getnaðarvarnarpillunnar séu þekktar og samt sé skrifað upp á hana fyrir fjölmargar konur. Þannig sé beðið með bóluefni sem geti mögulega valdið blóðtappa en skrifað upp á pillur sem geta sannarlega valdið blóðtappa á sama tíma. Konur hafa stigið fram á samfélagsmiðlum og sagt þetta skjóta skökku við. Spurður um þetta segir Þórólfur:

„Það er náttúrulega þekkt að það eru auknar líkur á blóðtappa við notkun getnaðarvarnarpillu. Það þarf að vega það og meta hjá þeim sem henni ávísa, hvort menn vilji taka þá áhættu eða ekki. Þannig er það með öll lyf. Það eru alltaf einhverjar aukaverkanir af öllum lyfjum og það þarf alltaf að vega og meta hvort ávinningurinn sé meiri en aukaverkanirnar. Það er þannig líka í þessu tilviki með Astra Zeneca bóluefnið, að menn þurfa að skoða það svolítið í því ljósi, að bera tíðni aukaverkana saman við grunntíðnina í samfélaginu, sjá hvort tíðnin er aukin hjá bólusettum umfram óbólusetta. Það er það sem það snýst um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka