Breytir gangi leiksins

Í biðröð eftir bólusetningu í Laugardalshöll.
Í biðröð eftir bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæði Bretum og Bandaríkjamönnum, helstu ferðaþjóðum til Íslands, og öðrum þjóðum utan Schengen-samstarfsins verður kleift að koma til landsins á ný hafi þeir gild bóluefnavottorð. Birta á reglugerð þessa efnis í dag, sem taki þegar gildi, að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

„Ég taldi ekki málefnalegar ástæður fyrir því að mismuna þjóðum innan og utan Schengen, en ekki heldur að hafa takmarkanir á komu fólks utan Schengen með bólusetningu hingað, takmarkanir sem miðuðust við að hefta útbreiðslu veirunnar.“

Áslaug Arna á ekki von á neikvæðum viðbrögðum annarra Schengen-ríkja. „Kýpur hefur þegar gert slíkan samning við Ísrael án athugasemda. Breyting okkar styður áfram við markmið takmarkananna.“

„Þetta breytir gangi leiksins algerlega fyrir möguleika ferðaþjónustunnar til þess að afla tekna í sumar,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við blaðið. „Þetta er mjög skynsamleg og raunar huguð ákvörðun hjá ríkisstjórninni og ég verð að hrósa henni fyrir það.“ Jóhannes segir að þetta hafi þegar haft áhrif á þessum tveimur lykilmörkuðum og að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi þegar í gær tekið að haga seglum eftir þessum nýju vindum. „Fyrstu viðbrögð eru mjög jákvæð og auka okkur bjartsýni.“

Utanríkisþjónustan hóf að kynna breytinguna fyrir samstarfsríkjunum í Schengen í gær, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka