Gæti haft verulega jákvæð áhrif á kerfið

Eirberg. Fulltrúar Hí, HA og geðþjónustu Landspítala koma að þróun …
Eirberg. Fulltrúar Hí, HA og geðþjónustu Landspítala koma að þróun nýjameistaranámsins. Hér sést Eirberg en þar er hjúkrunarfræði við HÍ kennd. mbl.is/Ófeigur

Nýtt meistaranám í klínískri geðhjúkrun við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri í samstarfi við geðþjónustu Landspítala, sem að mati sérfræðings í geðhjúkrun mun hafa verulega jákvæð áhrif á íslenska heilbrigðiskerfið í heild sinni, er nú í þróun. Stefnt er að því að taka á móti fyrstu nemendunum haustið 2022 ef tilskilin leyfi, samþykktir og fjármögnun fást.

Meistaranám í geðhjúkrun er nú þegar í boði í Háskóla Íslands en í því er lögð mun meiri áhersla á fræðilegt nám en klíníska þjálfun. Einnig er í boði þverfaglegt diplómu- og meistaranám í geðheilbrigðisfræðum við Háskólann á Akureyri. Helga Sif Friðjónsdóttir, sérfræðingur í geðhjúkrun hjá geðþjónustu Landspítala, segir að klínísk þjálfun undir handleiðslu sé einmitt einn mikilvægasti þátturinn fyrir geðhjúkrunarfræðinga til að öðlast viðeigandi hæfni.

„Við sjáum óendanlega möguleika í þessu,“ segir Helga Sif um námið. Hún situr nú í vinnuhópi sem fulltrúi geðþjónustu Landspítala með fulltrúum frá hjúkrunarfræðideildum háskólanna beggja. Fulltrúarnir eru Gísli Kort Kristófersson dósent og sérfræðingur í geðhjúkrun, Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir dósent og geðhjúkrunarfræðingur við Háskólann á Akureyri og Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor og geðhjúkrunarfræðingur við Háskóla Íslands. Þessi hópur hefur þróað námið. Með því verður í fyrsta sinn mögulegt að útskrifast með sameiginlega gráðu bæði frá hjúkrunardeild HA og HÍ ef af verður. „Þetta snertir ekki bara þá þjónustu sem er skilgreind sem geðheilbrigðisþjónusta,“ segir Helga Sif. „Alls staðar eru verkefni fyrir geðhjúkrunarfræðinga sem hafa farið í gegnum þetta klíníska nám.“

Fyrirmyndin að náminu er m.a. klínískt diplómunám í heilsugæsluhjúkrun sem var sett af stað fyrir nokkrum árum við Háskólann á Akureyri. Helga Sif segir að vísbendingar séu um að gæði hjúkrunar innan heilsugæslunnar, sem og heilsugæslan sjálf, hafi þróast og batnað gríðarlega síðan því námi var hleypt af stokkunum.

Helga Sif segir að hjúkrunarfræðingar hafi kallað eftir aukinni klínískri þjálfun með handleiðslu og bíði margir spenntir eftir því að nýja meistaranámið í geðhjúkruninni komist af stað. Þá segir Helga Sif kjöraðstæður til að skapa námið núna þar sem þekking innan HÍ, HA og Landspítala sé nú fyrir hendi. „En ekki síður vegna þess að áhersla stjórnvalda er á geðheilbrigðisþjónustu. Þau hafa eflt heilsugæsluna sem og innleitt geðheilsuteymi á landsvísu. Við vitum alveg að það eru næg verkefni fyrir hjúkrunarfræðinga sem eru með sérmenntun í klínískri geðhjúkrun,“ segir Helga Sif.

Hún telur að þekking geðhjúkrunarfræðinga á t.d. líkamlegum kvillum, geðlyfjafræði, eftirlit með aukaverkunum og stuðningsmeðferð geri þá vænlega til þess að vera meginmeðferðaraðilar og málastjórar fólks með geðrænar áskoranir. Hún bendir á að notendur heilbrigðiskerfisins kvarti gjarnan yfir því að það skorti samfellu í heilbrigðisþjónustu og þar gæti þá málastjóri komið inn, fagaðili sem sinnir grunngeðmeðferð einstaklings og metur hvenær þörf er á frekari aðstoð annarra fagaðila.

„Hjúkrunarfræðin byggist á víðtækum þekkingargrunni svo maður öðlast mikla innsýn og færni til að aðstoða fólk að vinna með lífsálfélagslegar áskoranir sem það stendur andspænis. Svo bætirðu við þessu klíníska meistaranámi í geðhjúkrun og þá ertu í mínum huga kominn með hjúkrunarfræðing sem er sérhæfður í að vinna með einstaklingum að því að efla geðheilbrigði í sínum aðstæðum,“ segir Helga Sif.

Mikill þorsti eftir þekkingu

„Það er mikil eftirsókn og þorsti eftir frekari þekkingu, kennslu og þjálfun í geðhjúkrun,“ segir Helga Sif sem telur mikilvægt að innan hjúkrunarfræði sé horft til þess sem vel hafi tekist innan annarra fagstétta. Það er einmitt markmiðið með klínískri áherslu í nýja meistaranáminu. Þar er til að mynda horft til annarra fagaðila sem eru í virkri handleiðslu og þjálfun hjá reyndari fagaðila. Helga Sif segir minna af fyrirmyndum um slíkt í hjúkrun. „Hjúkrunarfræðingar hafa saknað þess.“

Helga Sif segir fyrirspurnir hafa borist frá nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum, sem og hjúkrunarfræðingum sem starfa innan geðþjónustu um það hvenær námið fari af stað. Sumir bíða jafnvel spenntir eftir því.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert