Óvenjuhlýtt miðað við árstíma er víða í dag og hafa tveggja stafa hitatölur mælst á nokkrum stöðum. Hitamet milli 11. og 20. mars féll við bæinn Kollaleiru í Reyðarfirði en þar hefur hitinn mest farið í 17,9 stig í dag.
Fyrra metið milli 11. og 20. mars var 17,6 stig sem mældust á Siglufirði þann 13. árið 2016, að því er fram kemur á bloggsíðu Trausta Jónssonar veðurfræðings.
Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík 11. til 20.mars er 12,3 stig – það var þann 20. árið 2005.
Langt er þó í hitametið í marsmánuði en árið 2012 féll það eftirminnilega þegar hiti fór í 20,5 stig í Kvískerjum í Öræfum. Er það í eina skiptið sem 20 stigum hefur verið náð í mars hér á landi.
Trausti bendir á að hlýindi á þessum tíma vetrar lofi engu um framhaldið og nefnir í því samhengi mildan mars árið 1953. Í framhaldi af honum fylgdi kuldatíð og var apríl það ár kaldasti mánuður ársins.