„Í allt haust kastaði hann upp í lok hverrar viku“

Fleiri foreldrar átta sig á að veikindi barna þeirra tengist …
Fleiri foreldrar átta sig á að veikindi barna þeirra tengist myglu í skólahúsnæði Fossvogsskóla. mbl.is/​Hari

Móðir sem tók son sinn úr í Fossvogsskóla um helgina hefur ekki fengið svar eða viðbrögð við pósti þar sem hún tilkynnti að barn hennar kæmi ekki aftur í skólann. Drengurinn hefur verið verulega veikur í allan vetur og foreldrar fengu nýlega staðfest frá taugalækni að veikindin væru af völdum myglu í skólanum. Í dag eru sex dagar frá því að drengurinn steig síðast inn fyrir skólans dyr og er rétt að komast eðlilegur litur á andlit hans að sögn móður drengsins. 

Vandamálið talað niður

„Strákurinn minn er búinn að vera mjög veikur, en ég var alltaf að leita að einhverju öðru af því að það var alltaf verið að tala um að það væri búið að gera svo mikið fyrir skólahúsnæðið og það væri allt í lagi með það,“ segir Emilía Rós Sigfúsdóttir, móðir sjö ára nemanda í Fossvogsskóla. 

Hún segir að hana hafi ekki grunað þetta fyrr en önnur móðir í skólanum hafi spurt eftir barninu og sagst ekki hafa séð hann lengi. „Ég sagði bara nei, hann er alltaf þreyttur og liggur bara uppi í sófa og er hættur að leika sér.“

Þær báru saman bækur sínar og konan spurði hvort hún hafi velt því fyrir sér hvort myglan í skólanum gæti verið að valda þessu. Hún á líka barn sem er veikt og hafði fylgst vel með mygluumræðunni. 

„Ég var að bíða eftir tíma til að fara með barnið mitt til taugalæknis. Ég fór til hans fyrir viku, fór yfir hans sögu, sagði lækninum að hann væri í Fossvogsskóla og tók saman einkennin. Læknirinn sagði strax við mig að einkennin væru allt of mikil til að benda til einhvers annars en þessarar myglu,“ sagði Emilía. 

Emilía Rós Sigfúsdóttir, móðir sjö ára drengs í Fossvogsskóla.
Emilía Rós Sigfúsdóttir, móðir sjö ára drengs í Fossvogsskóla. Ljósmynd/Aðsend

Barnið komið á alls konar lyf

Emilía segir að barnið hafi hitt marga lækna í vetur og hafi verið sett á alls konar lyf út af mikilli vanlíðan. Um helgina tóku foreldrar barnsins ákvörðun um að drengurinn færi ekki aftur inn í byggingar Fossvogsskóla og sendu tölvupóst þess efnis á skólastjóra og kennara.

„Ég er ekki enn búin að heyra frá þeim. Ég er hreinlega að velta fyrir mér hvort ég hafi sent á vitlaust tölvupóstfang, en ég veit að kennararnir fengu póstana og ég sendi tvo; á sunnudagskvöldi og mánudagskvöldi. Það er miðvikudagur og ég er ekki búin að fá neinn póst frá skólastjóranum. Það er algjör þögn,“ segir Emilía. 

Núna eru að verða komnir sex sólarhringar frá því að sonur hennar var inni í húsnæði skólans. „Það er eins og það sé að koma réttur litur á andlitið á honum. Í allt haust kastaði hann upp í lok hverrar viku. Á kvöldin, hann bara ældi öllu.“

Önnur einkenni sem Emilía nefnir hjá 7 ára syni sínum eru lystarleysi, miklir magaverkir, miklir höfuðverkir og svimi. „Hann kom oft bara hvítur í framan heim úr skólanum. Gat ekki farið í tónlistarskólann, gat ekki farið á æfingar, gat ekki leikið við vini. Hann er búinn að liggja uppi í sófa eftir skóla í tvær vikur vegna þreytu. Hann er sjö ára, brjálæðislega frískur, orkumikill, duglegur og jákvæður.“

Emilía segir kennara skólans miður sín og hafa sagt henni að drengurinn liggi oft á gólfinu og kvarti undan verkjum. Kennararnir hafi sömuleiðis alltaf verið að leita að einhverjum öðrum orsökum. 

Voru ekki látin vita

Tekin voru sýni í skólahúsnæðinu síðast í desember. Niðurstöður sýnatökunnar og tegundagreiningu myglusveppa lágu fyrir 21. janúar. Í ljós kom að kúlustrý­nebbu, sem er hættulegur myglusveppur, var að finna í heimastofum annars bekkjar. 

Það var ekki fyrr en 19. febrúar sem umræddar niðurstöður voru birtar í framkvæmdasjá Reykjavíkurborgar þar sem skjöl tengd framkvæmdunum eiga að koma fram. Emilía segir að foreldrar barnanna hafi ekki verið látnir vita af þessum myglufundi heldur hafi hún frétt af honum fyrir tilstilli foreldra sem lágu yfir gögnum. 

„Það var ekki fyrr en á sunnudagskvöldið var sem ég frétti að það væri kúlustrýnebba á nokkrum stöðum í báðum þeim stofum sem barnið mitt eyðir mestum tíma í. Það finnst mér hræðilegt. Það hefði mátt stoppa þetta í janúar og barnið mitt er búið að kveljast í tvo mánuði aukalega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert