Katrín oftast og Sigurður Páll sjaldnast á RÚV

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er sá stjórnmálamaður þeirra 63 þingmanna sem nú sitja á þingi sem oftast hefur komið fram sem viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins eða þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins.

Katrín var á tímabilinu 803 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 159 sinnum fram í þáttum í útvarpi eða sjónvarpi. Auk þess kom hún fjórum sinnum fram í vefútsendingum.

Svarið hefur að geyma hversu oft hver og einn þingmaður kom fram í fréttum útvarps og sjónvarps á tímabilinu 1. janúar 2018 til 31. janúar 2021. Einnig kemur fram í hversu mörgum þáttum útvarps og sjónvarps viðkomandi birtist á sama tímabili ásamt framkomu í vefútsendingum.

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is

Sigurður Páll Jónsson í Miðflokknum hefur sjaldnast þingmanna sem nú sitja á þingi ratað á RÚV. Hann var átta sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom aldrei fram í þáttum. 

Leitarniðurstaða úr gagnagrunni Ríkisútvarpsins er háð því að nafn þátttakanda hafi verið skráð í kerfið þar.

Formenn tíðir gestir

Bjarni Benediktsson er oftast sjálfstæðismanna en hann var 519 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 42 sinnum fram í þáttum. Hann kom þrisvar fram í vefútsendingum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson var tíðasti gestur framsóknarmanna á RÚV. Hann var 309 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 35 sinnum fram í þáttum.

Logi Einarsson var tíðastur samfylkingarmanna á RÚV. Hann var 162 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 39 sinnum fram í þáttum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var nokkuð tíður gestur á RÚV. Hann var 178 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 17 sinnum fram í þáttum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var 128 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 42 sinnum fram í þáttum.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var oftast Pírata en hún var 108 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 37 sinnum fram í þáttum.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kom oftar til RÚV en samflokksmaður hennar Guðmundur Ingi Kristinsson. Inga 84 sinnum viðmælandi í útvarps- og sjónvarpsfréttum og kom 17 sinnum fram í þáttum.

Nánar má skoða málin hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert