Léku sér á þunnum ís á Rauðavatni

Morgunsólin skín yfir Rauðavatn.
Morgunsólin skín yfir Rauðavatn. mbl.is/Ernir

Lögreglan fékk tilkynningu um drengi sem voru við leik á þunnum ís á Rauðavatni í dag. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar en þar er þess ekki getið að nokkurn hafi sakað. Vart þarf að taka fram að varhugavert getur verið að ætla að treysta á að ísinn haldi, einkum og sér í lagi þegar hlýtt er í veðri eins og var í dag. 

Lögregluþjónar sinntu einnig útkalli eftir að tilkynnt var um þjófnað í verslun í Breiðholti. Þá þurftu þeir að leysa upp slagsmál í Hafnarfirði. Slagsmálahundarnir reyndust vera ölvaðir og var málið leyst á staðnum.

Ekki er allt upp talið því maður var með ólæti í miðbæ Reykjavíkur og fór hann ekki að fyrirmælum lögreglu. Fyrir vikið þurfti hann að dúsa í fangaklefa. Að síðustu barst lögreglu tilkynning um að maður væri á ferð með hníf í hendi í Hlíðunum. Engan var hins vegar að sjá þegar laganna verði bar að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert