Mál „dulbúins“ björgunarsveitarmanns leyst

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður sem var sagður hafa dulbúið sig sem björgunarsveitarmaður og gengið í hús í Vesturbænum í þeim tilgangi að hafa fé af fólki var á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir að haft hafi verið samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Í samstarfi við hana tókst að staðfesta að þetta hafi verið maður á vegum félagsins.

„Þetta passar miðað við stað og stund. Það er engin hætta á að einhver dulbúinn maður hafi verið á sveimi í Vesturbænum sem var ekki á okkar vegum,“ segir Davíð Már.

Hann kveðst ekki vita hvers vegna þessi misskilningur kom upp og veit ekki hver tilkynnti málið til lögreglunnar. Hann álasar þó engum fyrir að tilkynna um mál sem vekja upp einhverjar grunsemdir.

Breyta verkferlum

Fyrr í morgun greindi Davíð frá því við mbl.is að björgunarsveitarmenn hefðu undanfarna daga gengið í hús í Vesturbænum og boðið fólki að gerast bakverðir og verða þannig mánaðarlegir styrktaraðilar félagsins.

„Við ætlum að breyta verkferlunum hjá okkur og leggja okkur meira fram við að upplýsa almenning um að við séum á ferðinni til að koma í veg fyrir að svona misskilningur verði aftur,“ segir hann og tekur fram að Landsbjörg hafi fengið góðar viðtökur við verkefninu og að félagið sé þakklátt fyrir stuðninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert