Karlmaður á sjötugsaldri, sem ákærður er fyrir að hafa kveikt í húsi á Bræðraborgarstíg síðasta sumar með þeim afleiðingum að þrír létust, er metinn ósakhæfur í yfirmati þriggja geðlækna, sem staðfestu með því fyrra mat geðlækna. Ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Fyrirtaka var í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en dómari hafnaði kröfu verjanda mannsins um að dómshald færi fram fyrir luktum dyrum.
Ákæruvaldið hyggst kalla 35 vitni fyrir dóminn, en verjandinn fór fram á að lagðar yrðu fram lögregluskýrslur tveggja einstaklinga sem handteknir voru á vettvangi fyrir að torvelda störf, að því er segir í frétt RÚV.
Aðalmeðferð í málinu hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. apríl og verður dómurinn fjölskipaður.