Greiddar hafa verið 734 milljónir króna í viðspyrnustyrki en hátt í sex hundruð umsóknir um styrkina bárust á fyrstu tveimur vikunum eftir að Skatturinn opnaði fyrir þær.
Viðspyrnustyrkjum er ætlað að aðstoða rekstraraðila við að viðhalda lágmarksstarfsemi meðan áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru gætir og gera samfélagið betur viðbúið því þegar heimurinn opnast að nýju, að því er fjármálaráðuneytið greinir frá.
Úrræðið tekur til allra tekjuskattskyldra rekstraraðila sem verða fyrir a.m.k. 60% tekjufalli vegna heimsfaraldursins frá nóvember 2020 til og með maí 2021 og er sótt um styrkina fyrir einn mánuð í senn á vef Skattsins.
Frá því í janúar á þessu ári hafa verið greiddir um 9 milljarðar króna í tekjufallsstyrki en viðspyrnustyrkir eru beint framhald þeirra, segir enn fremur.