Skoða mál „dulbúins“ björgunarsveitarmanns

Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki haft samband við Slysavarnafélagið Landsbjörg vegna aðila sem er sagður hafa gengið í hús í Vesturbænum dulbúinn sem björgunarsveitarmaður í þeim tilgangi að hafa fé af fólki.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir að verið sé að kanna málið. Til stendur að hafa samband við lögregluna vegna þess.

Hann bendir á að undanfarna daga hafi björgunarsveitarmenn verið að ganga í hús í Vesturbænum til að bjóða fólki að gerast bakverðir og verða þannig mánaðarlegir styrktaraðilar félagsins.

„Við höfum verið að kynna þetta verkefni fyrir almenningi. Starf björgunarsveita er ekki unnið án stuðnings frá almenningi og atvinnulífinu og þetta er ein leiðin sem við notum til að kynna það fyrir fólki,“ segir Davíð Már.

„Mjög líklega er eitthvað að slá saman þarna,“ bætir hann við og segir að félagið muni kanna hvort það sé eitthvað í þeirra ferlum sem hægt er að bæta. Hann nefnir að menn séu bæði merktir og með skírteini þegar þeir ganga í hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert