„Tími til að leggja töfrabrögðin til hliðar“

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, segir að ríkisstjórnin hafi beitt sjónhverfingum með því að tala um að farið yrði í auknar opinberar framkvæmdir í landinu.

Fyrst hafi ríkisstjórnin gert það í upphafi árs 2019 þegar ljóst var að fjárfestingar atvinnulífsins voru stórlega að dragast saman og síðan aftur í upphafi veirufaraldursins.

Hann benti á mat Hagstofu Ísland þar sem kemur fram að framkvæmdir á árinu 2019 drógust saman um tæp 11% og á síðasta ári um 9,3%.

„Auðvitað eru þessar staðreyndir afleitar fyrir ríkisstjórnina,“ sagði hann og bætti við að aukin þörf væri á innviðainnspýtingu á næstu árum.

„Það er kominn tími til að leggja töfrabrögðin til hliðar og fara í raunverulegar aðgerðir til að skapa atvinnu,“ sagði Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert