Tveir voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápi í Rauðagerði í síðasta mánuði.
Að sögn lögreglu var annar þeirra úrskurðaður í fjögurra vikna varðhald, eða til miðvikudagsins 14. apríl, á grundvelli a. og b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. sml. og hinn í vikulangt varðhald, eða til miðvikudagsins 24. mars, á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Þá var einn til viðbótar úrskurðaður í fjögurra vikna farbann, eða til miðvikudagsins 14. apríl.
Þrír sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins, segir lögreglan sem bætir við að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.