Vilja fara varlega í bólusetningu barna

Sem stend­ur ger­ir reglu­gerð heil­brigðisráðherra ráð fyr­ir því að börn­um …
Sem stend­ur ger­ir reglu­gerð heil­brigðisráðherra ráð fyr­ir því að börn­um sem fædd eru árið 2006 og síðar verði ekki boðin bólu­setn­ing nema þau séu með und­ir­liggj­andi lang­vinna sjúk­dóma og í sér­stakri áhættu vegna Covid-19. AFP

Þórólfur Guðnason segir enn ekki ljóst hvort bólusetning barna gegn Covid-19 muni fara fram hérlendis, þó að niðurstöður úr rannsóknum á bólusetningu barna verði jákvæðar. Hann bendir á að það gæti jafnvel verið skynsamlegra að bólusetja einungis fólkið í kringum börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma en ekki börnin sjálf. 

„Það fer náttúrulega líka eftir því hvort þessi nýju afbrigði eru að valda einhverjum meiri sjúkdómi hjá börnum og yngra fólki, hvort það verði mælt með því að bólusetja yngri aldurshópa,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. 

Allir bóluefnaframleiðendurnir sem hafa fengið samþykki á sitt bóluefni gegn Covid-19 hjá Lyfjastofnun Evrópu hafa hafið rannsóknir á bólusetningu barna. Rannsókn á bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19 fyrir börn hófst í febrúarmánuði. Sambærileg rannsókn stendur yfir hjá Pfizer og Moderna. Janssen er að hefja klínískar rannsóknir á notkun bóluefnisins fyrir börn og þungaðar konur. Ísland hefur samið um bóluefni frá öllum framleiðendunum.

Alþekkt aðferð í bólusetningarfræðum

Sem stend­ur ger­ir reglu­gerð heil­brigðisráðherra ráð fyr­ir því að börn­um sem fædd eru árið 2006 og síðar verði ekki boðin bólu­setn­ing nema þau séu með und­ir­liggj­andi lang­vinna sjúk­dóma og í sér­stakri áhættu vegna Covid-19. 

„Eins og er viljum við fara varlega í [bólusetningu barna]. Við viljum frekar að í tilfellum barna með undirliggjandi sjúkdóma, sem gætu gert þau næmari og útkomuna úr þessum sjúkdómi verri, sé fjölskyldan í kringum þau bólusett til þess að verja þau þannig. Það er alþekkt leið í bólusetningarfræðunum,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Það hefur verið mælt með því að gera það frekar, alla vega eins og staðan er núna, en það er mjög nauðsynlegt að fá niðurstöður úr rannsóknum á bólusetningum á börnum, hvernig verkunin er, hvort þau myndi mótefni og svo framvegis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka