Ísland getur orðið óbyggilegt á okkar líftíma og stærsta hagsmunamálið, þegar öllu er á botninn hvolft, er golfstraumurinn.
Þetta kom fram í máli Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, undir dagskrárliðnum störf þingsins.
Hann vísaði í nýlega úttekt blaðsins New York Times um að hitastigið hér gæti fallið um meira en 10 gráður. Ísland yrði þá eins og Svalbarði.
„Með fullri virðingu fyrir Svalbarða þá vil ég ekki búa á Svalbarða,“ sagði Ágúst Ólafur og bætti við að lífinu eins og við þekkjum það væri þar með lokið. Fasteignirnar yrðu verðlausar, fiskurinn færi og áhrifin yrðu skelfileg annars staðar í heiminum líka.
Hann sagði sterkar vísbendingar um að loftslagsbreytingar og bráðnun jökla sé að verða til þess að það hægist á golfstrauminum og hann veikist. „Þetta ber að taka mjög alvarlega,“ sagði Ágúst og nefndi að Íslendingar þurfi að huga meira að hafinu í kringum landið.