Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki samrýmst lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
Í tilefni af fréttaflutningi um að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi óskað eftir upplýsingum og ábendingum um ætluð refsiverð brot í gegnum Facebook ákvað Persónuvernd í september í fyrra að hefja frumkvæðisathugun á því hvort slík vinnsla samrýmdist lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, að því er segir á vef Persónuverndar.
Niðurstaða Persónuverndar var að vinnsla lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum, þar sem óskað var eftir upplýsingum og ábendingum frá almenningi í gegnum einkaskilaboð á Facebook vegna atvika sem kunnu að varða við lög og/eða vörðuðu tiltekna einstaklinga sem birt var mynd af, hafi ekki samrýmst lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.
Fram kemur m.a. í svari lögreglunnar við spurningum Persónuverndar að komið hafi fyrir að óskað hafi verið eftir ábendingum í gegnum Facebook.
„Vísað er til þess að þegar óskað sé eftir upplýsingum af lögreglu sé mjög algengt að þær berist með þeim hætti þó svo að ekki hafi verið beðið um það. Slíkar ábendingar hafi í mörgum tilfellum ekki að geyma haldbærar eða persónugreinanlegar upplýsingar og varði oft ekki raunverulega einstaklinga,“ segir í svarinu.
„Þegar einstaklingur veitir upplýsingar í gegnum Facebook sé reynt að afgreiða erindið með viðkomandi eða leiðbeina honum um að koma upplýsingum til lögreglunnar með formlegum hætti, þ.e. með símtali, tölvupósti, gegnum tilkynningagátt eða í gegnum heimasíðu lögreglunnar ef við á.“
Lögreglan vísar einnig til þess að einstaklingar í bráðri hættu hafi náð að gera vart við sig í gegnum Facebook, þar sem þeir hafi ekki haft aðgang að símakorti, aðeins nettengingu. Aðilar í felum vegna heimilsofbeldis eða í sjálfsvígshættu hafi náð til lögreglu með þessari leið.