100 manns í sóttkví vegna smits starfsmanns ION

Ljósmynd/ION Lux­ury Advent­ure Hotel

Viðbúið er að um 100 manns verði sendir í sóttkví vegna kórónuveirusmits sem kom upp utan sóttkvíar í gær. Rakning gengur vel en enn er hvorki ljóst hvernig sá smitaði smitaðist, né heldur hvort um breska afbrigðið sé að ræða. 

Þetta segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, í samtali við mbl.is. Hún segir að rakningarteymið hafi staðið sig virkilega vel í þessari smitrakningu eins og í annarri rakningu. Engin lokatala hefur verið gefin upp um fjölda þeirra sem senda þarf í sóttkví en búist er við að þeir verði um 100 talsins.

Vísir greindi frá því í dag að smitið hafi komið upp hjá starfsmanni hótels ION á Nesjavöllum. Samkvæmt fréttinni veit starfsmaðurinn ekki hvernig hann smitaðist. Hann hefur ekki verið í vinnu síðan í byrjun mars en mætti á starfsmannagleði síðastliðinn sunnudag. mbl.is hefur ekki náð í eiganda ION hótela vegna þessa. 

Hjördís gat ekki staðfest að um starfsmann hótelsins væri að ræða, enda gefa almannavarnir ekki upp persónugreinanlegar upplýsingar um smitaða einstaklinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert