Hæstiréttur vísar amfetamínmáli aftur til Landsréttar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Jón Pétur

Hæstiréttur ómerkti í dag áfrýjaðan dóm í máli Jerzy Wlodzimierz Lubaszka og vísaði dómnum aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný enda var það niðurstaða Hæstaréttar að Landsréttur hefði ekki fullnægt reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Í desember í fyrra dæmdi Landsréttur Jerzy í fimm ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot fyrir hlutdeild sína í innflutningi á 11,5 lítrum af amfetamínbasa með Norrænu í október 2017.

Segir í dómi Hæstaréttar að við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti skoraðist Jerzy undan því að gefa skýrslu um sakargiftir. Engin frekari sönnunarfærsla fór þá fram fyrir réttinum utan þess að spiluð var hljóðupptaka af skýrslu lögreglumanns.

Í dómi Hæstaréttar kemur þá fram að ef að ákærði neytir réttar síns til að skorast undan því að gefa skýrslu hefði endurskoðun á sönnunarmati héraðsdóms getað farið fram með því að skila upptökur í hljóði og mynd af skýrslum ákærða og meðákærða í héraði.

Jafnframt segir í dómnum að það dugi ekki að Landsréttur hefði haft aðgang að upptökunum ef ekkert lægi fyrir um hvort að dómendur hefðu skoðað upptökurnar.

Í ósamræmi við réttláta málsmeðferð

„Til að rétturinn geti með viðhlítandi hætti endurskoðað sönnunarmat héraðsdóms að þessu leyti er nauðsynlegt að upptökur sem skipta máli við sönnunarmat séu spilaðar við aðalmeðferð málsins þannig að málflutningur í kjölfarið geti tekið til þeirrar sönnunarfærslu,“ segir í dómnum.

Segir þá í dómi Hæstaréttar að þrátt fyrir að engin sönnunarfærsla hefði farið fram fyrir dómnum endurskoðaði Landsréttur sönnunargildi munnlegra framburða.

„Þessi aðferð við sönnunarmat Landsréttar fór í bága við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu og var því í ósamræmi við áskilnað um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir í niðurstöðum Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert