Banaslys, sem varð þegar fólksbifreið lenti í árekstri við vörubíl á Reykjanesbraut á móts við Straumsvík í janúar 2020, er rakið til þess að ökumaður fólksbílsins var ölvaður.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti skýrslu um slysið í dag. Þar kemur fram, að fólksbílnum var ekið vestur Reykjanesbraut en vörubifreið með snjótönn að framan var ekið í austurátt. Aðstæður voru erfiðar, snjókoma, skafrenningur, snjór á vegi, mikil hálka og myrkur.
Ökumaður vörubílsins sagðist hafa séð fólksbílinn koma á móti sér í nokkurri fjarlægð á réttum vegarhelmingi. Örstuttu seinna hafi ökumaður fólksbílsins misst stjórn á bílnum sem rann yfir á rangan vegarhelming og í veg fyrir vörubílinn. Ökumaður fólksbílsins hlaut alvarlega höfuðáverka og lést af völdum þeirra.
Í skýrslunni segir, að umtalsvert áfengismagn hafi verið í blóði ökumanns fólksbifreiðarinnar og hann hafi misst stjórn á bíl sínum sem rann yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir vörubílinn. Þar segir einnig að ástandi fólksbílsins hafi verið ábótavant.
Rannsóknarnefndin segir að vörubílar og vinnuvélar með snjómokstursbúnað geti verið hættulegar öðrum ökutækjum og vegfarendum í umferðinni. Almennt sé þessi búnaður ekki hannaður með árekstrarkröfur í huga. Hættan aukist við aukinn ökuhraða og mikla umferð og ber að fara sérstaklega gætilega þar sem verið sé að nota snjóruðningstæki af hvaða gerð sem er.
Loks segir rannsóknarnefndin, að umferð á Reykjanesbraut á þessum stað sé mikil, að meðaltali um 18 þúsund ökutæki á sólarhring. Nú sé í undirbúningi tvöföldun á þeim vegkafla þar sem slysið varð. Hvetur nefndin stjórnvöld til að flýta aðgreiningu umferðar á þjóðvegum þar sem umferðarþungi er mikill.