„Þetta er allt að lifna við, enda hafa reglur verið rýmkaðar og við getum núna tekið á móti bæði börnum og fullorðnum, innan marka þó,“ segir Guðrún Dís Jónatansdóttir hjá Borgarbókasafninu um batnandi tíð og fleiri viðburði á vegum safnsins.
„Við höfum vissulega þurft að dansa í takt við Covid-reglurnar undanfarið ár, en við tókum strax þann pól í hæðina að láta ekki deigan síga, heldur skipuleggja dagskrá af fullum krafti. Við höfum þurft að ýta einhverju á undan okkur, fresta viðburðum og breyta dagsetningum, en við höfum samt verið með margt í gangi, miðað við hvað hefur mátt á hverjum tíma,“ segir Guðrún Dís og bætir við að bókasöfnin séu í nýsköpunargírnum.
„Covid kenndi okkur meira á tæknina og við höfum verið að byggja upp þekkingu innanhúss í tengslum við streymi og upptökur. Slíkt form á viðburðum er fyrir vikið komið til að vera í einhverjum mæli. Við hugsum það líka út frá aðgengi, því með streymi náum við til fleiri, bæði þeirra sem eiga ekki heimangengt og þeirra sem búa úti á landi.“
Í gær var líf og fjör í OKinu í Gerðubergi, þar sem börn mættu á Fiktdaga, viðburð sem haldinn er reglulega. Í OKinu er ýmis búnaður sem hægt er að nota, undir leiðsögn starfsmanna; þrívíddarprentari, vínilskeri, barmmerkjavél, Minecraft, Little Bits og margt fleira.
„OKið er rými sem er frekar nýtilkomið, en það er sprottið upp úr styrk sem við fengum frá barnamenningarsjóði til að hanna upplifunarrými fyrir börn og unglinga. Í OKinu er líka eitt af þremur verkstæðum safnsins en þetta rými býður upp á margvíslega starfsemi svo sem smiðjur, fyrirlestra, hópvinnu og skapandi vinnu. Í OKinu er hægt að læra, skapa, fikta eða bara hanga. Við hvetjum kennara, frístunda- og félagsmiðstöðvastarfsmenn til að bóka OKið til eigin nota, bæði í kennslu og leik. Einnig geta ungmenni á eigin vegum bókað rýmið og fengið aðstoð við að láta drauma sína verða að veruleika.“
Ýmislegt spennandi er á döfinni í Gerðubergi, næstkomandi laugardag ætlar Rán Flygenring að leiða teiknismiðju fyrir krakka.
„Við lögðum mikla vinnu í sýningu sem stendur nú í Gerðubergi og Rán tók þátt í að skapa. Sýningin heitir Heimsókn til Vigdísar, en Rán málaði beint á veggina myndir af persónum úr bók sinni Vigdís – Bókin um fyrsta konuforsetann. Það er stórkostleg upplifun fyrir fólk á öllum aldri að ganga inn í söguheim bókarinnar á þessari sýningu sem lýkur í lok mars. Krakkarnir í teiknismiðjunni fá að vinna myndir sjálf inn í sýninguna, skrifa og teikna á veggina, búa til hluti og svo framvegis. Þau hafa frjálsar hendur, þó undir leiðsögn Ránar, svo þetta er tilvalið tækifæri fyrir krakka til að uppgötva listamanninn í sjálfum sér.“