Ekki börnum bjóðandi

Fundur vegna vandans í Fossvogsskóla.
Fundur vegna vandans í Fossvogsskóla. mbl.is/Eggert Johannesson

„Við bjóðum bara ekki börnum upp á þetta,“ sagði eitt þeirra foreldra sem stigu í pontu á foreldrafundi sem haldinn var í Fossvogsskóla í gær vegna heilsuspillandi myglu sem greinst hefur í skólanum í nokkur ár.

Skólastarf í Fossvogsskóla mun fara fram á nýjum stað frá og með mánudegi. Þetta kemur fram í tölvupósti frá Ingibjörgu Ýri Pálmadóttur skólastjóra eftir fund sem haldinn var með foreldrum, starfsfólki og borgarfulltrúum í skólanum í gær.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, og Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, sögðu að nýtt framkvæmdateymi hefði verið skipað sem fara ætti yfir stöðuna vegna mygluvandamálanna í skólanum. Enn greinist mygla í skólanum og kenna börn sér meins vegna þess.

„Þetta mál hefur tekið langan tíma og ýmislegt hefði mátt fara betur,“ sagði Skúli en við framkvæmdir vegna myglu fyrir tveimur árum var skólastarf Fossvogsskóla flutt í höfuðstöðvar KSÍ í Laugardal. Helgi sagði slíkan flutning ekki mögulegan núna en óvíst er hvort rýma þurfi allan skólann eða hluta hans; slíkt komi í ljós eftir vinnu framkvæmdateymisins.

Foreldrar, bæði á staðnum og í fjarfundabúnaði, lýstu óánægju sinni með ræður og svör þeirra Helga og Skúla en þeir sögðu meðal annars að ákvörðun um mögulega lokun skólans væri í höndum skóla- og frístundasviðs í samráði við skólann.

Foreldrar spurðu meðal annars hvort börnin ættu áfram að vera í menguðu húsnæði á meðan unnið væri að enn einni skýrslunni um málið. 250 foreldrar höfðu safnað undirskriftum til að þrýsta á um aðgerðir vegna málsins og voru þær afhentar Skúla og Helga á fundinum. Í áskorun sem fylgdi er þungum áhyggjum af stöðu skólans lýst sem og ótta við áhrif myglunnar á börnin í skólanum. „Ástand skólans skerðir lífsgæði barna og starfsfólks og stofnar heilsu þeirra í hættu. Við minnum á að myglumengun getur haft varanleg og skaðleg áhrif á heilsu,“ kemur meðal annars fram í áskoruninni.

Starfsdagur á morgun

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, sagði að einhverjir starfsmenn hefðu fundið fyrir einkennum sem rekja mætti til myglu. Einn starfsmaður væri í ársleyfi og ætlaði ekki að snúa aftur vegna óheilnæms lofts í skólanum. Ingibjörg sagðist enn fremur ekki geta svarað því hvort skólastarf yrði með hefðbundnum hætti í dag en starfsdagur er fyrirhugaður á morgun.

Vilji foreldra skýr

Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur, segir málið hafa dregist um of á langinn og það sé skýrt eftir fundinn að foreldrar vilji láta rýma skólann. Mikil reiði sé meðal foreldra og starfsfólks vegna málsins og nú þurfi að bretta upp ermar, vinna hratt og gera það sem börnum og starfsfólki er fyrir bestu. Sem í þessu tilfelli er að láta rýma skólann, sagði Örn. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert