Erfitt að vita nákvæmlega hvaðan fólk kemur

Komufarþegar í Leifsstöð.
Komufarþegar í Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það áhyggjuefni, með tilliti til þess að stjórnvöld ætla að miða við litakóðunarkerfi á landamærum frá 1. maí nk., að lönd geti verið með mismunandi lituð svæði eftir stöðu faraldursins. Hann telur sig ekki bundinn af litakóðunarkerfinu og segir það ekki setja skoðunum sínum eða tillögum skorður.

Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, gagn­rýndi hug­mynd­ir um litakóðun­ar­kerfi á landa­mær­un­um, á þingi í gær og sagði að ef gripið yrði til þeirra væri það ekki í sam­ræmi við ráðlegg­ing­ar sótt­varna­lækn­is. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagði Þórólfur aftur á móti að hann hefði enga skoðun á litakóðunarkerfinu og að það væri ekki tímabært fyrir hann að tjá sig um litakóðunina eins og leikar standa.

Ekki bundinn af litakóðunarkerfinu

„Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að nota litakóðunarkerfið frá fyrsta maí. Ég held að þau hafi lýst því nokkuð afdráttarlaust yfir að það verði þannig. Það er hópur á vegum stjórnvalda að vinna að framtíðarfyrirkomulagi á landamærunum frá 1. maí og það er bara nauðsynlegt að fá einhverja niðurstöðu í það mál,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann benti á að honum beri samt sem áður að leggja fram tillögur um fyrirkomulag á landamærum frá og með fyrsta maí

„Hvað mig áhrærir finnst mér það ekki tímabært að tjá mig um eitthvað núna, það verður að fara eftir því hvernig staðan verður þegar nær dregur. Ég tel mig, sem sóttvarnalækni, ekki bundinn af þessum litakóðunarkerfi, eða mínum skoðunum eða tillögum hvað það varðar,“ sagði Þórólfur.  

Gæti orðið erfitt í framkvæmd

Hann bætti því við að hann hefði ekkert við það að athuga að stjórnvöld væru að marka sér stefnu í þessum efnum, það þætti honum mjög eðlilegt.

„Ég tek alveg undir það að það er áhyggjuefni að lönd geta verið með mismunandi lituð svæði. Sum svæði innan landa eru græn, önnur rauð. Það getur verið mjög erfitt fyrir landamæraverði hér að vita nákvæmlega hvaðan fólk er að koma. Þannig að þetta gæti orðið erfitt í framkvæmd en það er hlutverk hópsins sem er að fjalla um þetta að finna lausn á því,“ sagði Þórólfur.

Alma D. Möller landlæknir bætti því við að kallað hafi verið eftir fyrirsjáanleika í ýmsum aðgerðum hvað faraldurinn varðar en að veiran byði ekki upp á fyrirsjáanleika og mikilvægt væri að allir væru tilbúnir í að áætlanir væru endurskoðaðar reglulega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka