Frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um skipulagsreglur fyrir flugvelli var sent til umsagnar til hagsmunaaðila á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag.
Þetta staðfestir Bergþór Ólafsson, formaður nefndarinnar, spurður hvar málið sé statt í kerfinu.
Vinnsla nefndarinnar vegna frumvarpsins fer af stað eftir nokkrar vikur og þá verða hagsmunaaðilar kallaðir á fund.
Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag vera hissa á frumvarpinu, sem var lagt fram í síðustu viku, og taldi ótækt að þessi leið verði farin.
Ef það nær fram að ganga fær ráðherra heimild til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem munu ganga framar en svæðis-, aðal- og deiliskipulag sveitarfélaga. Verði frumvarpið að lögum yrði Reykjavíkurborg því í raun svipt skipulagsvaldi á Reykjavíkurflugvelli.