Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur fundað með og er í sambandi við sóttvarnalækna á Norðurlöndunum um það hvort hefja eigi bólusetningu með bóluefni AstraZeneca á nýjan leik eftir að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) gaf grænt ljós á notkun efnisins fyrr í dag.
Notkun bóluefnisins var stöðvuð tímabundið í síðustu viku, bæði hér á landi og víða annars staðar, eftir að tilkynnt var um mögulega alvarlegar aukaverkanir, þ.á.m. blóðtappa.
Fyrr í dag tilkynnti Lyfjastofnun Evrópu svo að niðurstaða stofnunarinnar væri sú að bóluefnið sé öruggt og veiti mikla vernd gegn Covid-19. Þá sé ávinningurinn af bólusetningum með efninu meiri en hugsanlega áhætta.
Bóluefnið er ekki tengt aukinni hættu á segareki eða blóðtöppum, sagði Emer Cooke, forstjóri EMA, á blaðamannafundi í dag. Hún tók þó fram að miðað við fyrirliggjandi gögn gæti stofnunin ekki útilokað tengsl á milli blóðtappa og bóluefnisins. Stofnunin mun halda rannsóknum sínum á efninu áfram.
Ekki hefur náðst í Þórólf Guðnason sóttvarnalækni vegna málsins eftir að greint var frá niðurstöðum EMA í dag en upplýsingafulltrúi almannavarna segir hann meðvitaðan um niðurstöðuna.
Það sé verið að skoða málið, funda með viðeigandi aðilum og unnið að ákvarðanatöku varðandi það hvort hefja eigi bólusetningar með efninu frá AstraZeneca á nýjan leik. Ekki er búist við að greint verði frá ákvörðun um það í kvöld, heldur í fyrsta lagi á morgun.