Hafa ekki náð að rekja uppruna smitsins

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur tekist að rekja uppruna kórónuveirusmitsins sem greindist í gær en rakning og raðgreining standa nú yfir. Niðurstöður úr þeim verða ljósar síðar í dag. Sá smitaði var ekki í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af smitinu. 

Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagðist Þórólfur telja að sú smithrina sem kom upp fyrir um tveimur vikum sé nokkurn veginn yfirstaðinn. 

„En vissulega er ekki hægt að útiloka að við séum með eitthvert samfélagslegt smit í gangi út frá smitinu sem greindist í gær.“

30 af 34 smituðum framvísuðu neikvæðu vottorði

Þá benti hann á að frá 19. febrúar, þegar niðurstaðna úr PCR-prófum var fyrst krafist á landamærum, hafi 5.000 manns komið til landsins, þar af hafi 4.700 verið skimaðir fyrir veirunni og 34 greinst með virkt smit. Helmingurinn greindist í fyrri skimun en helmingur í seinni skimun. 

„Af þessum 34 sem hafa greinst á landamærum hafa um 30 framvísað neikvæðu PCR-vottorði,“ upplýsti Þórólfur og sagði því að krafa um neikvæð PCR-vottorð væri ekki örugg leið til að koma í veg fyrir að smit berist til landsins. 

„Flestir sem eru að greinast á landamærum er með þetta svokallaða breska afbrigði veirunnar,“ sagði Þórólfur. Eitt smit af suðurafríska afbrigði veirunnar hefur einnig greinst en enginn smitaðist út frá því. 

„Ég held að það sé hollt að hafa það í huga að fólk sem er að smitast og greinast á landamærum getur sýkst og veikst alvarlega,“ sagði Þórólfur sem hvatti fólk til að fara eftir settum reglum og panta sér tíma í sýnatöku finni það fyrir einkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert