„Eftir miklar vangaveltur undanfarnar vikur og mánuði hef ég ákveðið að gera hlé á rekstri og útgáfu Hafnfirðings. Rekstrarforsendur eins og þær eru í dag eru því miður afar slæmar og koma þar inn fjölmargar ástæður.“
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Olga Björt Þórðardóttir, ritstjóri og útgefandi Hafnfirðings, ritar undir á vefsíðu fjölmiðilsins.
Þar kemur fram að samkeppni við netrisa og óafgreitt fjölmiðlafrumvarp hafi mikið með ákvörðunina að gera, sem og hár prentunar- og dreifingarkostnaður.
„Ég hef lagt mig fram við að prófa fjölbreytta fjölmiðlun og fjalla um það sem er hjartanu næst og mér hefur fundist mikilvægast hverju sinni, þótt áhugasviðum hafi vissulega fjölgað með hverjum mánuðinum. Mig langar að biðja ykkur um að hafa í huga að það er alls ekki sjálfgefið að einstaklingar með ástríðu af þessu tagi og reynslu búi í bæ eins og þessum og sé til í að taka svona slag og fórna miklu fyrir,“ skrifar Olga Björt.
Hún segir bæjarmiðla í raunverulegri útrýmingarhættu og að stóru miðlarnir muni aldrei koma í stað þeirra, þótt þeir síðarnefndu séu mjög mikilvægir.
„Sem Hafnfirðingur til 13 ára hefði ég ekki getað fengið betra tækifæri til að kynnast Hafnarfirði og bæjarbúum en á þennan hátt og það mun ávallt fylgja mér, hvernig sem fer,“ bætir hún við.