Hlaut níu skotáverka í Rauðagerði

Albanskur maður var myrtur í Rauðagerði um miðjan febrúar.
Albanskur maður var myrtur í Rauðagerði um miðjan febrúar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Armando Bequiri, sem var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði laugardagskvöldið 13. febrúar, hlaut níu skotáverka, meðal annars á lífsnauðsynleg líffæri, höfuð og bol, samkvæmt bráðabirgðaskýrslu réttarmeinafræðings vegna réttarkrufningar.

Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra barst tilkynning um meðvitundarlausan mann og var hann fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar. Endurlífgunartilraunum var hætt skömmu eftir komuna þangað. Dánarorsök var afleiðing skotáverkanna sem annar maður veitti honum. Á vettvangi manndrápsins fundust níu skothylki.

mbl.is

Í samskiptum við aðra sakborninga

Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. mars en í úrskurði Landsréttar frá föstudeginum 12. mars er staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem felld er úr gildi skipun Steinbergs Finnbogasonar, verjandi eina Íslendingsins sem er sakborningur í málinu.

Fram kemur að við rannsókn og úrvinnslu fjarskiptagagna hafi komið í ljós að Steinbergur hafi verið í samskiptum við aðra sakborninga málsins bæði fyrir og eftir að hann var skipaður verjandi í málinu. Þá hafa vitni borið um að hafa hitt og rætt við Steinberg eftir að brotið var framið og eftir að hann var skipaður verjandi. Þess vegna telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu nauðsynlegt að taka skýrslu af Steinbergi með réttarstöðu vitnis.

Skotvopnið ófundið

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að lögregla telur ljóst að manndrápið hafi verið framið í samverknaði nokkurra og jafnvel með hlutdeild annarra líkt og gögn og umfang málsins bera með sér.

Þá liggur fyrir að skotvopnið sem var notað hefur ekki fundist en lögreglu hafa borist fjölmargar ábendingar og upplýsingar varðandi það, sem verið er að vinna úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert