Frá því jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst 24. febrúar hefur ekki fyrr en nú mælst jafn langur tími án þess að skjálfti yfir 4 að stærð ríði yfir.
Virknin hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um 1.400 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær. Þrír skjálftar mældust yfir 3,0 að stærð, sá stærsti kl. 2.37 að stærð 3,3 í Fagradalsfjalli, um einum kílómetra norður af Nátthaga.
Skjálftavirknin er áfram að mestu tengd þeim hluta kvikugangsins sem liggur næst Fagradalsfjalli, að því er segir í tilkynningu frá vísindaráði Almannavarna, sem fundaði í dag.
GPS-mælingar bendi til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga.
„Smám saman hefur verið að hægja á flæðinu allt frá því að kröftugir skjálftar mældust síðustu helgi. Von er á nýjum gervihnattarmyndum á morgun, sem unnið verður úr til að afla vísbendinga um stöðu mála hvað varðar þróun kvikuflæðis á umbrotasvæðinu.“
Tekið er fram að á fundinum hafi verið farið yfir þær sprungur sem myndast hafa á yfirborði í hrinunni og þegar verið kortlagðar.
„Sú vinna mun halda áfram næstu daga ef veður leyfir, en kortlagningin fer fram með aðstoð dróna og nýtist til að leggja mat á umfang umbrotanna. Eins var farið yfir nýjustu gasmælingar á svæðinu og sýndu þær engar breytingar frá því sem áður hefur mælst.“
Meðal annars var styrkur á Radongasi (222Rn) mældur, en þekkt er að styrkur gassins aukist rétt fyrir eða á meðan eldgosi stendur.