Starfsmenn Vegagerðarinnar eru á leið að Suðurstrandarvegi til að loka veginum á milli Hrauns og Krýsuvíkurafleggjara, það er austan Grindavíkur.
„Þeir eru á leiðinni með lokunargrindur og verða þarna á staðnum um klukkan sex,“ segir Jóhann Bjarni Skúlason, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.
Sig hefur orðið á veginum og verður honum lokað klukkan 18 síðdegis. Staðan verður metin að nýju klukkan átta í fyrramálið.
„Sérfræðingar Vegagerðarinnar komu þarna um miðjan dag í dag til að skoða veginn. Þetta eru ekki góðar horfur. Það er of mikið af sprungum í veginum, líka í vegrásinni og fyllingunni allri. Þeim leist ekki alveg nógu vel á þetta.“
Ljóst sé að töluvert þurfi að laga til að koma veginum aftur í fullkomið horf. Fyllingin undir veginn sé mjög há og ef losnar úr henni geti gat myndast inn í miðjan veg.
„Svo spáir rigningu ofan í þetta í nótt, þannig að við tókum þá ákvörðun að loka bara.“
Fyrr í dag var sagt frá því að nýjar myndir sýndu fleiri misgengi sem hafa verið að hrökkva og skríða til. Nokkur þeirra eru í kringum Grindavík.