Ákveðið hefur verið að loka Suðurstrandarvegi fyrir umferð við Festarfjall, eftir að vart varð við að vegurinn hefði sigið.
Lokunin gildir frá Hrauni að Krýsuvíkurafleggjara og tekur gildi klukkan 18 í dag.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að staðan verði metin að nýju klukkan átta í fyrramálið.
Skemmdir í veginum komu í ljós í kjölfar stóra skjálftans sem reið yfir á sunnudag. Upptök hans voru talin vera beint undir veginum.
Fyrr í dag var sagt frá því að nýjar myndir sýndu fleiri misgengi sem hafa verið að hrökkva og skríða til. Nokkur þeirra eru í kringum Grindavík.