„Rétti kosturinn“ þar sem faraldurinn er í uppsveiflu

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við …
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómalækningum á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Pressan er ekki eins mikil að hefjast handa alveg einn, tveir og þrír en það kæmi mér ekki á óvart ef menn myndu bara hefja bólusetningar að nýju og ég held að það sé í sjálfu sér bara eðlileg ályktun af þessari athugun,“ segir Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á Landspítalanum og prófessor við Háskóla Íslands.

Fyrr í dag tilkynnti Lyfjastofnun Evrópu (EMA) að niðurstaða stofnunarinnar væri sú að bóluefni AstraZeneca væri öruggt og veiti mikla vernd gegn Covid-19.

Magnús segir í samtali við mbl.is að það að hefjast aftur handa við bólusetningu með bóluefninu AstraZeneca sé augljóslega rétti kosturinn í þeim kringumstæðum þar sem faraldurinn er í uppsveiflu aftur og mun valda miklu heilsutjóni og dauðsföllum.

Magnús bendir á að það sé ansi mikill munur á stöðunni í Evrópu og hér á landi þar sem greinast fá tilfelli.

„Ef þú ert hins vegar í stöðu þar sem að faraldurinn er ekki útbreiddur og það er ekki samfélagssmit í gangi þá náttúrulega er tímapressan minni og þá kannski geta menn aðeins gefið sér tíma til þess að skoða þetta betur en ég held að það svosem þyrfti ekki mjög mikinn tíma til þess en allavega þá eru það svona mín fyrstu viðbrögð við þessu,“ segir Magnús.

Ekkert að því að staldra aðeins við

Magnús segir þó niðurstöður frá Noregi vekja ákveðnar spurningar og telur hann því að það þurfi kannski að leggjast aðeins betur yfir þessi gögn.

Magnús bendir á að það sé mögulegt að það séu einhverjir hópar sem hafi auka segahneigð eða aukna tilhneigingu til blóðtappamyndunar.

„Það er talað um að mögulega hafi þessi hópur ákveðið form af svokallaðri storkhneigð sem eykur hættuna á blóðsegamyndun og ef það er hægt að afmarka þann hóp vel og undanskilja hann þá væri það náttúrulega jákvætt. Þannig þetta eru kannski svona mínar fyrstu vangaveltur.“

Segir Magnús og bendir á að þar sem staðan er góð og kannski ekki alveg sama tímapressa væri ekkert að því að staldra aðeins við og átta sig betur á því hvort það hafi verið eitthvað sameiginlegt sem einkenndi þennan hóp

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert