Ákvörðun Landspítala um að hætta skimun bólusettra sjúklinga fyrir flutning frá spítalanum er tekin á þeim grundvelli að bólusettir einstaklingar innan spítalans hafi ekki verið útsettir fyrir smiti miðað við núverandi stöðu.
Eins og mbl.is greindi frá í morgun þarf ekki að skima fullbólusetta sjúklinga sem flytjast á aðrar stofnanir, heim með þjónustu opinberra aðila eða á Landakot og Vífilsstaði.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir mjög ólíklegt að bólusettir sjúklingar á spítalanum beri kórónuveiruna með sér og að skimun kosti sitt.
„Ef þú ert inniliggjandi á spítalanum og ert að fara á aðra stofnun og ert fullbólusettur þá hefurðu ekkert verið útsettur, miðað við núverandi stöðu,“ segir Már og bætir við:
„Þetta er svo ólíklegur atburður og það er náttúrulega kostnaður að gera þessi próf. Við teljum að það réttlæti ekki þann kostnað.“
Áfram verður skimað fyrir veirunni á meðal þeirra sjúklinga sem eru óbólusettir, eða hálfbólusettir, og eiga von á því að flytja af Landspítala.
„Þeir sem eru óbólusettir eru áfram skimaðir einfaldlega vegna þess að við vitum það að þessi veirupest getur verið án merkjanlegra einkenna og ef þú ert að fara á aðra stofnun viljum við ekki verða til þess að senda einhvern einkennalausan, hugsanlega smitandi á aðrar stofnanir,“ segir Már.
„Fólk greinir svolítið á um það hvort þetta sé nauðsynlegt eða ekki en það varð úr að láta stofnanir og alla njóta vafans.“
Aðspurður segir Már að þessi breyting muni auðvelda flutning fólks af spítalanum.