Tvö og hálft ár fyrir tvær nauðganir

Karlmaður var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar í …
Karlmaður var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tvær nauðganir. mbl.is/Þór

Karlmaður var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tvær nauðganir gegn sambýliskonu sinni og barnsmóður.

Í ákæru er maðurinn sagður hafa vorið 2013 nauðgað konunni með því að hafa haft við hana önnur kynferðismök án hennar samþykkis. Segir í ákæru að hann hafi lagst ofan á hana, sett fingur inn í leggöng hennar og rifið og klórað kynfæri hennar að utan og innan og svo stuttu síðar slegið hana í höfuð og líkama og klórað hana á lærum og í kringum kynfærin, stungið fingri inn í leggöng hennar og rifið og klipið í kynfæri hennar. Meðan á þessu stóð reyndi konan ítrekað að fá hann til að hætta.

Héraðsdómurinn taldi sannað að maðurinn hefði sýnt af sér þá háttsemi sem greinir í ákæru. Segir þá í dómnum að maðurinn sagðist ekki hafa beitt brotaþola kynferðislegu ofbeldi en kannski „farið lengra“ eftir að hún sagði nei.

Hélt áfram kynferðislegum tilburðum þrátt fyrir að vera sagt að hætta

„Verður framangreindur framburður ákærða ekki túlkaður á annan hátt en þann að hann hafi haldið áfram kynferðislegum tilburðum gagnvart brotaþola eftir að hún sagði honum að hætta,“ segir þá í dómnum.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa árið 2015 haft önnur kynferðismök við konuna, án hennar samþykkis og með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Hann hafi lagst ofan á hana og gert tilraun til að koma lim sínum inn í leggöng hennar og þegar það gekk ekki rifið og klórað brjóst hennar og kynfæri og rifið og klipið í kynfæri hennar. Segir í ákæru að konan hafi af þessu hlotið áverka á og við kynfærasvæðið og á brjóstum og afrifu við leggangaop vinstra megin.

Maðurinn sagðist ekki kannast við að hafa sært brotaþola í leggöngunum með fingrum þar sem að hann hafði hefði mikið nagað neglurnar og þær því verið mjúkar.

Héraðsdómur taldi sannað að ákærði hefði haldið áfram atlotum sínum gagnvart brotaþola þrátt fyrir að hún segði honum að hætta og í kjölfar þess beitt hana grófu ofbeldi eins og lýst er í ákærunni. Héraðsdómur taldi þó ekki sannað að maðurinn hefði þvingað hana til munnmaka.

Auk þess að sæta tveggja og hálfs árs fangelsisrefsingu var maðurinn dæmdur til að greiða þrjár milljónir króna auk vaxta til brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert