Væntir þess að notkun bóluefnisins verði heimiluð

„Ég held að þetta séu þrátt fyrir allt miklu meiri …
„Ég held að þetta séu þrátt fyrir allt miklu meiri hagsmunir heildarinnar, að verja okkur fyrir sýkingunni,“ segir Már í samtali við mbl.is. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um áframhaldandi notkun bóluefnis AstraZeneca gegn Covid-19 hér á landi en viðbúið er að Lyfjastofnun Evrópu gefi út yfirlýsingu vegna bóluefnisins í dag. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, segir að það myndi setja strik í reikninginn fyrir spítalann ef notkun bóluefnisins yrði hætt hér á landi. 

„Ef þetta verður alveg flautað af verðum við náttúrlega sett í ákveðna aðstöðu en ég vona það og vænti þess að þetta verði heimilað. Ég held að þetta séu þrátt fyrir allt miklu meiri hagsmunir heildarinnar, að verja okkur fyrir sýkingunni,“ segir Már í samtali við mbl.is. 

Hlé var gert á bólu­setn­ingu með bólu­efni AstraZeneca í síðustu viku. Fleiri Evr­ópuþjóðir hafa einnig beðið með notk­un bólu­efns­ins vegna ótta um að það geti valdið blóðtappa. Síðan þá hafa Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in, AstraZeneca og Lyfja­stofn­un Evr­ópu sagt að bólu­efnið sé ör­uggt og eng­in tengsl séu á milli þess og blóðtappa. 

Smitaðist erlendis og er líklega með breska afbrigðið 

Sá sem var lagður inn á Landspítala í fyrrinótt smitaðist af Covid-19 erlendis. Ekki er vitað hvort viðkomandi sé með breska afbrigði veirunnar en talið er líklegt að svo sé. Ekki hafa verið fleiri innlagnir á spítala vegna Covid-19 síðan í fyrrinótt. 

Már segir að það komi málinu í raun ekki við hvort viðkomandi sé með breska afbrigði veirunnar þar sem veikindin af völdum þess séu ekkert öðru vísi en af völdum annarra afbrigða veirunnar sem hafa greinst hér á landi. 

„Mér er ekki kunnugt um að veikindin verði þyngri. Samkvæmt sóttvarnalækni hafa öll veikindi undanfarið verið breska afbrigðið, skilst mér, svo mér finnst það mjög líklegt [að sá sem er inniliggjandi sé með breska afbrigðið] en við höfum engan sérstakan áhuga á því,“ segir Már. 

Sá sem er inniliggjandi á spítalanum er á miðjum aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka