Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær að íslenska ríkið skyldi greiða 4.500.000 krónur í miskabætur til manns sem sat í gæsluvarðhaldi vegna gruns um peningaþvætti frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018.
Maðurinn, sem er frá Nígeríu, var sakfelldur fyrir peningaþvætti í fjársvikafarsa og var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar. Ásamt honum voru þrír Íslendingar sakfelldir, Íslendingarnir þrír voru dæmdir til 8-12 mánaða fangelsisvistar fyrir brot sín en þau höfðu hjálpað erlendum manni, sem kallaður var „Sly“ við að svíkja fé út úr suðurkóreska félaginu Daesun Food One Co. Ltd.
Íslendingarnir hjálpuðu Sly að útvega sér íslenska bankareikninga en alls voru lagðar rúmar 53 milljónir króna inn á bankareikning eins ákærða. Hluti peninganna var síðan fluttur úr landi með aðstoð nígeríska mannsins, sem í ákæru var sagður hafa komið gagngert til landsins í febrúar 2016 til þess að sjá um að umræddir fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum.
Með dómi Landsréttar var manninum, eins og áður segir, gert að sæta tveggja mánaða fangelsi en til frádráttar refsingunni átti að koma gæsluvarðhaldið sem hann sætti frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018.
Kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjaness að grundvöllur bótakröfu mannsins sé sá að hann hafi verði sviptur frelsi að ósekju þar sem hann þurfti að sæta gæsluvarðhaldi og farbanni mun lengur en sú refsing var, sem honum hafi síðan verið gert að sæta samkvæmt dómi.
Var það mat Héraðsdóms Reykjaness að lagagrundvöllur væri fyrir því að íslenska ríkinu yrði gert að bera ábyrgð á þeirra frelsisskerðingu sem manninum var gert að sæta að frádregnum þeim dómi sem hann síðan hlaut.
Þó þótti dómnum rétt að lækka miskabæturnar með hliðsjón af eigin sök mannsins enda var manninum gert að þola þvingunarráðstafanir á grundvelli afbrots sem hann var á endanum sakfelldur fyrir í Landsrétti.
Eins og áður segir ákvað Hæstiréttur að miskabætur til handa stefnanda skyldu vera 4.500.000 krónur en stefnandi hafði þó aðallega gert þær dómkröfur að íslenska ríkið yrði gert að greiða honum 71.097.734 krónur.