Lyfjastofnun hefur fengið aðra tilkynningu um mögulega alvarlega aukaverkun í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca. Er það einstaklingur sem lagðist inn á spítala vegna blóðtappa í lungum og er nú í lífshættu.
Fréttablaðið greinir frá þessu.
Samkvæmt svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn blaðsins er tilfellið þó ekki sambærilegt þeim sem tilkynnt voru í Evrópu, þar sem magn blóðflagna hafði minnkað í blóði. Mörg ríki Evrópu, þeirra á meðal Ísland, stöðvuðu bólusetningu með bóluefni AstraZeneca í síðustu viku í kjölfar þess að slík tilfelli komu upp, þrátt fyrir að Lyfjastofnun Evrópu hefði ekki mælt með því.
Bólusetning er nú hafin að nýju í Þýskalandi og Frakklandi eftir að Lyfjastofnun Evrópu veitti efninu blessun sína á ný. Búist er við að á morgun liggi fyrir hvort bólusetningin mun hefjast að nýju hér á landi en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fundaði um málið með norrænum starfssystkinum sínum í dag.
Lyfjastofnun hafa borist sex alvarlegar tilkynningar eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca eða sem nemur 6,5 á hverja 10.000 sem hafa þegið bóluefnið. Til samanburðar hafa borist 24 alvarlegar tilkynningar eftir bólusetningu með efni Pfizer eða 9,2 á hverja 10.000 sem hafa fengið bóluefnið, og 5 alvarlegar tilkynningar eftir bóluefni Moderna (19 á hverja 10 þúsund bólusetta).