Blóð og vökvi úr riðusmituðum sauðfjárhræjum helltist niður í jarðveg á gámaþjónustusvæði á Akranesi í gær. Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.
Mikill þrýstingur hafði myndast af völdum gasmyndunar, úr hræjunum sem verið var að flytja til brennslu á Suðurnesjum, með þeim afleiðingum að hleri á ofanverðum gámnum gaf sig.
Atvikið uppgötvaðist áður en komið var að Hvalfjarðargöngum en þá hafði bifreið verið stöðvuð og ástand gáma athugað tvisvar. Atvikið var tilkynnt til Matvælastofnunar sem fyrirskipaði stöðvun flutningsins.
Á gámaþjónustusvæðinu á Akranesi var ástand gámsins kannað að nýju og hafist handa við að umhlaða hluta farmsins í annan gám. Við umhleðsluna helltist blóð og annar vökvi úr farminum niður.
Þrifum og sótthreinsun svæðisins á Akranesi þar sem umhleðsla átti sér stað er lokið. Jarðvegsskipti munu fara fram í þeim tilgangi að fjarlægja smitefnið eins og kostur er. Svæðið verður í framhaldinu girt af í varúðarskyni til að fyrirbyggja smit í sauðfé, kemur fram í tilkynningu Matvælastofnunar.
Ekki var meira magn af hræjum í gámnum en tíðkast við flutning á riðusmituðum úrgangi.